Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 600/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 600/2021

Fimmtudaginn 10. mars 2022

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. nóvember 2021, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjanesbæjar á umsókn hans um húsnæðisúrræði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fatlaður og með virka umsókn um húsnæðisúrræði hjá Reykjanesbæ. Kærandi var búsettur hjá aldraðri móður sinni þar til í janúar 2021 þegar hann var fluttur tímabundið á Hjúkrunarheimilið C. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjanesbæjar barst úrskurðarnefndinni 2. desember 2021 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. febrúar 2022 og voru þær kynntar Reykjanesbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá því að kærandi sé fatlaður maður sem hafi verið vistaður tímabundið í hvíldarinnlögn í janúar 2021 á Hjúkrunarheimilinu C vegna þess að félagsþjónustan í Reykjanesbæ hafi ekki haft nein úrræði fyrir hann. Innlögnin hafi átt að vara í um fjórar vikur. Réttindagæslumaður hafi síðastliðin þrjú ár barist fyrir því fyrir hönd kæranda að hann fengi búsetu og þjónustu í Reykjanesbæ en ekkert hafi gerst í þeim málum. Kærandi hafi búið hjá aldraðri móður sinni þar til í janúar 2021 er félagsþjónustan hafi tekið þá ákvörðun um að svipta hann sjálfræði og flytja hann á Hjúkrunarheimilið C. Fyrst hafi kærandi ekki viljað fara en þegar félagsþjónustan hafi sagt honum að hann yrði bara þar í stuttan tíma hafi hann samþykkt að fara þangað, enda með það í huga að vera þar tímabundið en ekki að flytja þangað alfarið. Lögheimili kæranda hafi verið flutt í D.

Kærandi sé undir 67 ára aldri og eigi því rétt samkvæmt lögum nr. 38/2018 á að fá búsetu og þjónustu í sínum heimabæ þar sem hann kjósi að búa. Hjúkrunarheimili sé ekki staður fyrir fatlað fólk yngra en 67 ára. Það hafi ávallt verið skýr vilji kæranda að búa í Reykjanesbæ. Þrátt fyrir það hafi verið ákveðið að flytja hann á C vegna úrræðaleysis hjá sveitarfélaginu. Reykjanesbær hafi vel vitað af þörf kæranda til búsetu og þjónustu til margra ára en aldrei brugðist við fyrr en í janúar 2021 og þá með því að flytja hann á Hjúkrunarheimilið C langt frá sínum heimabæ. Réttindagæslumenn hafi farið nokkrum sinnum á C til að hitta kæranda og þá biðji hann um að fá að fara aftur í Reykjanesbæ. Kærandi segist vera orðinn leiður á að vera á C, enda hafi hann nú verið þar í tæpt ár en þetta hafi einungis átt að vera tímabundin ráðstöfun. Kærandi búi á stað úti á landi langt frá sínum heimabæ gegn sínum vilja. Þeir fáu ættingjar sem hann eigi að og vilji heimsækja hann geti það ekki vegna fjarlægðar. Lögráðamaður kæranda hafi einnig sent ábendingar í gegnum árin til Reykjanesbæjar um að hann þurfi búsetuúrræði og þjónustu. Sveitarfélagi beri skylda til að eiga frumkvæði að því að kynna sér aðstæður fatlaðs fólks og gera því grein fyrir rétti sínum, sbr. 32. gr. laga nr. 38/2018. Kærandi eigi umsókn um búsetu hjá félagsþjónustunni. Hann hafi hvorki fengið skrifleg svör eins og beri að gera samkvæmt stjórnsýslulögum né verið kynnt áætlun um hvernig skuli staðið að afgreiðslu umsóknarinnar. Stjórnvöld eins og Reykjanesbær þurfi að fara eftir málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig beri að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því ef fyrirséð sé að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir og upplýsa um ástæður tafanna, auk þess hvenær ákvörðunar um búsetuúrræði sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Við þetta sé að bæta að því lengur sem kærandi sé vistaður utan heimabæjar síns og í úrræði sem hvorki henti honum né hann sé sáttur við því meira brjóti Reykjanesbær gegn sjálfsákvörðunarrétti hans og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Brýnt sé að úr því verði bætt hið fyrsta. Kærandi fari fram á að Reykjanesbær hraði afgreiðslu máls hans vegna alvarlegra brota á réttindum hans og krefjist þess að viðeigandi búsetuúrræði á þeim stað sem hann kjósi að búa verði fundið án frekari tafa með tilliti til 9. gr. laga nr. 38/2018.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjanesbæjar er tekið fram að miðað við þá fötlun og þær greiningar sem kærandi sé með sé liðveisla ekki næg þjónusta og komi ekki í stað þjónustu og húsnæðis eins og hann vilji, þurfi og eigi rétt á. Þrátt fyrir að kærandi hafi hafnað þjónustu árið 2009 þýði það ekki að hann vilji hana ekki núna 13 árum síðar. Miklar breytingar hafi verið í lífi kæranda síðustu ár. Faðir kæranda hafi látist árið X og móðir hans hafi elst á þessum 13 árum og bíði eftir aðgerð. Af gögnum að dæma virðist kæranda ekki hafa boðist önnur búseta hjá Reykjanesbæ á þessum 13 árum. Félagsráðgjafi kæranda hafi verið í tíðum samskiptum við réttindagæslumann frá árinu 2018 þar sem ítrekað hafi verið óskað eftir að Reykjanesbær fyndi úrræði fyrir kæranda en ekkert hafi gerst í þeim málum. Ef kærandi hafi ekki verið á skrá hjá Reykjanesbæ eftir búsetuúrræði fyrr en árið 2021 hafi ráðgjafinn ekki sinnt skyldum sínum sem félagsráðgjafi því að ekki hafi farið á milli mála hver vilji hans hafi verið varðandi húsnæði og þjónustu á tímabilinu 2018 til 2021. Einnig beri sveitarfélaginu að sinna leiðbeiningarskyldu sem augljóslega hafi ekki verið sinnt og ekki heldur þeirri frumkvæðisskyldu samkvæmt 16. gr. laga nr. 40/1991 og 32. gr. laga nr. 38/2018. Sú stuðningsþjónusta sem kæranda hafi verið veitt hafi verið aðstoð við böðun einu sinni í viku og liðveisla í skamman tíma. Það sé ótrúlegt að kæranda hafi ekki verið boðið fyrr af félagsþjónustunni að flytja að heiman miðað við þær lýsingar og viðbrögð sem komi fram í gögnum, sjá dagnótu frá 3. febrúar 2021. Í dagnótu frá 7. janúar 2021 sé rætt um vanrækslu sveitarfélagsins í málinu. Í dagnótu frá 8. október 2020 gefi læknir það álit að kærandi eigi frekar heima á heimili fyrir fatlað fólk heldur en á hjúkrunarheimili. Samt sem áður sé kærandi vistaður á hjúkrunarheimili. Í dagálunum sé systir kæranda að segja að ástandið sé ekki gott á heimilinu og ítreki að hann þyrfti að flytja að heiman og móðir sé því sammála, sjá dagál frá 23. apríl 2019, en þá sé sagt að ekkert búsetuúrræði sé á lausu. Kærandi velti því fyrir sér hvers vegna ekki hafi verið útbúin umsókn um búsetu með honum og honum leiðbeint fyrr en árið 2021. Þarna hafi félagsráðgjafinn átt að aðstoða kæranda við að sækja um húsnæði, það sé hans hlutverk. Í dagál frá 10. apríl 2018 komi fram að lögráðamaður kæranda leggi áherslu á að hann komist í sér húsnæði. Í tölvupósti frá 1. febrúar 2018 komi fram að kærandi þurfi að flytja að heiman og í tölvupósti frá 5. júlí 2018 komi fram að móðir sé að bugast undan álagi heima. Í greinargerð Reykjanesbæjar komi fram að árin 2016, 2017 og 2018 hafi lögráðamaður kæranda óskað eftir því að hann fengi viðeigandi búsetuúrræði. Kærandi fari fram á að honum verði úthlutað húsnæði hjá Reykjanesbæ tafarlaust, ásamt þjónustu.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að ráðgjafi velferðarsviðs hafi komið inn í mál kæranda í janúar 2021 en þá var verið að reyna að finna viðeigandi þjónustu fyrir kæranda. Þá hafi verið búið að reyna liðveislu og hún gengið vel þar til móðir kæranda hafi ekki verið sátt við leiðveitandann og því hafi sú þjónusta hætt. Ekki hafi fundist annar liðveitandi sem hentaði kæranda samkvæmt kröfum móður hans. Kæranda hafi verið boðin þjónusta á Hæfingarstöðinni en hann hafi ekki haft áhuga á því. Kærandi hafi fengið búsetuúrræði árið 2009 sem hafi ekki gengið upp vegna þess að hann hafi viljað vera hjá móður sinni og hafi ítrekað yfirgefið búsetuúrræðið sem hafi oft endað með lögregluvaldi og innlögnum á geðdeild. Kærandi hafi síðan dvalið á C árið 2009 og í læknisvottorði frá því ári komi fram að hann hafi verið ánægður á C en dvöl hans hafi lokið þar vegna þess að foreldrar hans hafi verið ósáttir við hjúkrunarheimilið. Frá árinu 2009 hafi engin umsókn um búsetuúrræði borist frá kæranda fyrr en í janúar 2021.

Tekið er fram að stuðningsþjónusta hafi verið sett inn á heimili kæranda en þau mæðgin hafi óskað eftir því að búa saman. Stuðningsþjónustan hafi verið endurmetin og aukin eftir þörfum í samráði við mæðginin. Í janúar 2021 hafi komið upp sú staða að kærandi hafi ekki haft í nein hús að venda þar sem móðir hans hafi þurft að fara í aðgerð og hafi ekki getað sinnt honum. Móðir kæranda hafi þá sagt við ráðgjafa velferðarsviðs að hún gæti ekki séð um hann og að hann væri byrði á henni. Hún hafi talað niður til hans og erfiðlega hafi gengið að eiga samskipti við þau mæðgin en kærandi hafi lítið tjáð sig við ráðgjafa velferðarsviðs. Því hafi komið upp sú hugmynd að bjóða kæranda að fara tímabundið á C á meðan móðir hans færi í aðgerð, eins og þá hafi staðið til. Kæranda hafi litist mjög vel á það og hafi verið ánægður á C samkvæmt honum sjálfum og starfsfólki á C. Þegar kærandi hafi verið búinn að vera í nokkra daga á C hafi hann farið að tala mun meira og tjá sig. Ráðgjafi velferðarsviðs hafi heimsótt kæranda fimm sinnum og alltaf hafi hann talað um að vera ánægður á C. Hann hafi sýnt ráðgjafa listaverk eftir sig og sagt frá skemmtilegum viðburðum á C. Hann hafi einnig talað um hversu ánægður hann væri með matinn sem hann fengi þar. Kærandi hafi einnig fengið köku og afmælisgjöf frá C sem hann hafi ekki verið vanur að fá áður. Kærandi hafi aldrei sagt ráðgjafa velferðarsviðs að hann vildi búa í E fyrr en í september 2021 þegar hann hafi sagst vilja flytja til móður sinnar. Þá hafi kæranda verið tjáð að það væri ekki hægt heilsu hennar vegna. Kærandi hafi verið spurður hvort hann vildi þá búa annars staðar í E en það hafi hann ekki viljað því að hann væri ánægður á C. Ráðgjafi velferðarsviðs hafi aldrei unnið málið með þær upplýsingar að hann væri óánægður eða liði illa á C.

Kærandi sé með umsókn um búsetuúrræði í Reykjanesbæ og sé á biðlista eftir slíku. Ráðgjafar velferðarsviðs telji kæranda vera í góðum höndum á C á meðan hann bíði eftir viðeigandi búsetuúrræði í Reykjanesbæ. C hafi fyllt út mat á stuðningsþörf vegna umsóknarinnar. Engar ákvarðanir hafi verið teknar um hagi kæranda nema í samráði við lögráðamann hans. Velferðarsvið hafi óskað eftir því að kærandi fengi lögráðamann aftur vegna þess hversu erfitt hafi verið að finna viðeigandi þjónustu fyrir hann í samráði við móður hans sem hafi viljað hafa hann hjá sér við bagalegar aðstæður.

IV.  Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla Reykjanesbæjar á umsókn kæranda um húsnæðisúrræði. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Í III. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fjallað um búsetu en þar segir í 1. mgr. 9. gr. að fatlað fólk eigi rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Í 2. mgr. 9. gr. kemur fram að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 38/2018 kemur fram að ákvörðun um að veita þjónustu skuli taka svo fljótt sem kostur er. Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær þjónustan verði veitt. Ef fyrirséð er að þjónustan sem sótt var um geti ekki hafist innan þriggja mánaða frá samþykkt umsóknar skal leiðbeina umsækjanda um þau úrræði sem hann hefur á biðtíma og aðra þjónustu sem er í boði. Í 8. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk er kveðið á um biðlista eftir húsnæðisúrræði. Þar segir:

„Nú hefur umsókn um húsnæðisúrræði samkvæmt reglugerð þessari verið samþykkt en ljóst er að ekki muni unnt að útvega það innan þriggja mánaða, skal þá tilkynna umsækjanda um ástæður tafanna og hvenær fyrirhugað sé að húsnæðisúrræði geti verið tilbúið. Þá skal setja umsókn á biðlista. Þegar umsækjanda er tilkynnt um að hann sé kominn á biðlista skal unnin áætlun um útvegun viðeigandi húsnæðisúrræðis og hvort og þá hvers konar annað úrræði standi umsækjanda til boða á biðtíma.

Sveitarfélag skal leggja biðlista eftir húsnæðisúrræðum til grundvallar við gerð húsnæðisáætlunar samkvæmt lögum um húsnæðismál.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um röðun á biðlista. Þar segir:

„Raða skal á biðlista eftir sömu sjónarmiðum og koma fram í matsviðmiðum sveitarfélaga. Sveitarfélög skulu kveða skýrt á um það í reglum sínum á hvaða matsviðmiðum skuli byggt, hvernig samþykktum umsóknum skuli forgangsraðað eftir þörf viðkomandi, lengd biðtíma eftir húsnæðisúrræði og öðrum þeim úrræðum sem standa til boða á biðtíma. Við mat á þörf og forgangi skal sveitarfélag líta til sömu viðmiða og varðandi úthlutun á félagslegu leiguhúsnæði, þar með talið núverandi húsnæðisaðstöðu umsækjanda og hversu brýna þörf viðkomandi hefur fyrir viðeigandi húsnæðisúrræði.“

Þá segir í 10. gr. reglugerðarinnar að sveitarfélag skuli tryggja reglubundið samráð við umsækjanda á biðtíma. Umsækjandi skuli þá upplýstur um stöðu á biðlista, áætlaða lengd biðtíma og þau úrræði sem honum standi til boða á biðtímanum.

Reykjanesbær hefur vísað til þess að kærandi sé með virka umsókn um búsetuúrræði og á biðlista eftir slíku. Í gögnum málsins liggur fyrir umsókn frá 21. janúar 2021 um búsetuþjónustu fyrir kæranda en af öðrum gögnum málsins er ljóst að húsnæðismál hans hafi verið til umræðu hjá sveitarfélaginu um árabil og það því meðvitað um aðstæður og þörf kæranda fyrir viðeigandi húsnæði löngu áður en formleg umsókn var gerð. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekki hægt að leggja til grundvallar að umsókn kæranda sé frá janúar 2021 við mat á því hvort afgreiðsla málsins hafi dregist í skilningi 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi dvelur nú á Hjúkrunarheimilinu C og hefur Reykjanesbær vísað til þess að þar sé hann í góðum höndum á meðan hann bíði eftir viðeigandi búsetuúrræði í sveitarfélaginu. Að öðru leyti er ekki að finna skýringar á þeirri töf sem hefur orðið á afgreiðslu máls kæranda og gögn málsins bera ekki með sér að unnið hafi verið sérstaklega og markvisst í húsnæðismálum hans síðustu ár.

Að því virtu og á grundvelli þess að Reykjanesbær hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og veita kæranda samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun viðeigandi húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Reykjanesbæjar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Reykjanesbæ að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum